Leikjavísir

Robots

Robots er tölvuleikur byggður á samnefndri teiknimynd sem að vakti miklar vinsældir hérna á klakanum. Myndin, og leikurinn, fjalla um Rodney Copperbottom sem er, eins og titillinn gefur til kynna, vélmenni. Hann býr í heimi alsettum vélmennum þar sem allir hlutir eru vélrænir á einn eða annan hátt. Rodney er talinn vera mikill uppfinningamaður af öllum þeim sem þekkja til hans, og fjallar leikurinn um ferð hans til stórborgarinnar þar sem hann ætlar að hitta uppáhalds uppfinningamanninn sinn, Bigweld, og kynna fyrir honum uppfinningar sínar. Það fyrsta sem sló mig við leikinn, er sá leiðinlegi hlutur, að öll brot úr myndinni eru algjörlega laus við hljóð. Þess í stað er kominn sögumaður, það er faðir hans Rodneys, og er sagan sögð frá hans sjónarhorni þar sem hann lýsir ferðalagi sonar síns. Þótt að þetta sé ekki mjög merkilegur galli, þá er þetta nokkuð sem mér fannst leiðinlegt. Grafíkin er í meðallagi. Hún er ekki mjög merkileg miðað við hæfileika PS2 vélarinnar, en hönnuðunum tókst samt mjög vel að endurskapa umhverfið í myndinni. Lítil vinna hefur verið lögð í smáatriði og persónusköpun, og fullkomið dæmi um það er það vandamál að persónurnar virðast eiga virkilega erfitt með að sýna svipbrigði. Það þarf sennilega að smyrja liðamótin aðeins framan í þeim. Til að auka húmorinn í leiknum hefur einum áhugaverðum aukahlut verið bætt við. Rodney hefur nefnilega fundið upp lítinn róbóta sem hann kallar Wonderbot, sem eltir hann hvert sem hann fer, og þegar maður heldur áfram í leiknum er hægt að vinna sér inn svokölluð Wonderbot “trikk”. Það þýðir einfaldlega að þegar manni hentar, getur maður  látið Wonderbotinn sýna lítið skemmtiatriði. Nokkuð sniðugur aukahlutur, þótt að þetta eitt og sér virki ekki sem hvatning til að halda áfram að spila leikinn. Hreyfingarnar eru bara þessar venjulegu hreyfingar sem allir platform leikir hafa. Það eru ekki margar merkilegar hreyfingar sem hægt er að nota, en það er hægt að vinna sér inn uppfærslur sem gefa manni tækifæri til að geta notað nýjar hreyfingar, en þrátt fyrir það eru möguleikarnir litlir. Myndavélin er líka bara ein stór mistök og ekkert annað. Hún hreyfir sig á alveg fáránlegan hátt, og er langoftast á svo fáránlegum stöðum að það er hálfómögulegt að sjá þá andstæðinga sem maður er að berjast við,  nema þeir standi beint upp við mann, eða beint fyrir framan myndavélina. Auk þess reynist manni oft erfitt að meta fjarlægðir þegar myndavélin er svona á flakki, sem veldur því að maður neyðist oft til að byrja einhversstaðar upp á nýtt vegna þess að maður datt niður af palli.  Þetta er hlutur sem Robots, og alltof margir aðrir leikir, klikka á. Spilunin er í sjálfu sér mjög venjuleg og hefðbundin. Maður bara hoppar og skoppar í gegnum eitthvert borð þar sem er bara ein leið fær, og maður þarf bara að komast á enda og leysa nokkur verkefni á meðan. Flest þessi verkefni eru alveg eins, og þau snúast langoftast bara um það að finna ákveðinn fjölda varahluta eða teikninga fyrir furðulega vísindamenn sem síðan gefa þér upplýsingar í staðinn. Þetta er í rauninni eina “fjölbreytnin” sem leikurinn bíður upp á. Þótt að það séu örfá önnur verkefni sem bjóða upp á öðruvísi spilun, þá snýst leikurinn í rauninni bara um þetta. Auk allra þessa galla í leiknum, eru margir litlir hlutir sem spilla fyrir. Til dæmis tekur það oft furðulega langan tíma til að hlaða einu borði, og eftir að maður deyr þarf maður aftur að sitja og bíða. Þetta auk margra annarra hluta, dregur leikinn langt undir allt sem kallast geta góð gæði. Niðurstaða: Robots er leikur sem stenst engar gæðakröfur, og býður ekki upp á neitt sem hinn venjulegi spilandi hefur ekki séð hundrað sinnum áður. Mikil vonbrigði. Vélbúnaður:        PS2 Framleiðandi:      Vivendi Universal Games Útgefandi:            Vivendi Universal Games Heimasíða leiks:  http://www.robotsgame.com/





Fleiri fréttir

Sjá meira


×