Viðskipti innlent

Keppi eingöngu á grundvelli verðs

"Ég hef verið að vinna með fjárfestum að þessu verkefni nokkuð lengi. Ég tel mig vita að þeir vilji að söluferli Símans sé gegnsætt og hlutlaust. Besta leiðin til þess er að skilgreina fyrst þau skilyrði sem væntanlegir kaupendur Símans þurfa að uppfylla áður en þeir gera tilboð í allan eignarhlut ríkisins. Það eru meðal annars atriði eins og framtíðarsýn Símans, fjárhagslegur styrkur og reynsla af rekstri. Þegar það er ljóst keppa fjárfestar, sem uppfylla þessi skilyrði, um Símann á grundvelli verðs eingöngu," segir Gunnlaugur Jónsson, fjármálaráðfjafi GJ fjármálaráðgjafar, sem hefur verið að undirbúa tilboð í Símann fyrir hönd hóps fjárfesta. Með þessu fyrirkomulagi er algjörlega hafið yfir allan vafa að mati Gunnlaugs að ríkið ætli ekki einhverjum einum aðila að kaupa Símann á lágu verði. Það skipti máli fyrir fjárfesta og ekki síður fyrir ferlið sjálft. Þá komi ekki upp ásakanir eftir á um að verið sé að hygla einum hópi á kostnað annars. Það sé til nóg af fólki sem vilji halda því fram sjái það tækifæri til þess. Þetta sé því líka mikilvægt fyrir ríkisstjórnina.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×