Viðskipti innlent

Vilja kaupa Singer

Verð á hlutabréfum í bæði KB banka og breska bankanum Singer & Friedlander hækkaði snögglega í kauphöllum í Reykjavík og Lundúnum í gærmorgun. Í lok dags hafði KB banki hækkað um 2,3 prósent en Singer um 14,8 prósent. Í kjölfarið barst tilkynning til bresku kauphallarinnar um að viðræður um kaup KB banka á breska bankanum væru komnar af stað og lokað var fyrir viðskipti á báðum stöðum. Áhugi KB banka á því að eignast Singer & Friedlander er ekki nýr af nálinni. Tilkynningin í gær markar því ekki óvænt tímamót heldur er hún staðfesting á því að formlegar viðræður hafi átt sér stað. KB banki á þegar um tuttugu prósent hlutafjár í bankanum. Tilkynningin í gær var send út þar sem snörp hækkun varð á hlutabréfaverði bankans í gærmorgun sem bent gæti til þess að upplýsingar um samningaviðræður stjórna bankanna hefðu verið farnar að kvisast út. Hvorki Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB banka, né Tony Shearer, forstjóri Singer & Friedlander, vildu tjá sig nánar við Fréttablaðið um stöðu samningaviðræðnanna. "Viðræðurnar eru á því stigi að það er ekki tímabært að við tjáum okkur," segir Hreiðar Már. "Ég get því miður ekki sagt neitt til viðbótar því sem fram kemur í tilkynningunni," segir Shearer. Markaðsgengi Singer & Friedlander í gær var um 560 milljónir punda sem samsvarar ríflega 63 milljörðum íslenskra króna. KB banki er talinn líklegur til þess að vera tilbúinn að greiða í kringum 550 milljónir punda fyrir bankann. Gengi pundsins gagnvart krónunni kemur ekki til með að skipta máli í ákvörðun KB banka þótt það hafi áhrif á upphæðina í krónum talið. Í samanburði við verð á íslenskum bönkum er Singer & Friedlander talinn ódýr. KB banki mun einnig telja að kaup á bankanum skapi færi til að auka mjög starfsemi sína í Bretlandi. Singer & Friedlander hefur beint kröftum sínum mjög að eignastýringu og einkabankaþjónustu en ekki lagt áherslu á fyrirtækjaráðgjöf og verðbréfamiðlun. Á þessum sviðum er líklegt að KB banki sjá tækifæri til að styrkja bankann ef af sameiningu verður. Burðarás á tæplega tíu prósenta hlut í Singer & Friedlander og fullyrt er að fjöldi íslenskra fjárfesta hafi keypt bréf í félaginu á síðustu misserum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×