Viðskipti innlent

Methagnaður hjá Actavis

Methagnaður varð á rekstri Actavis í fyrra en þá skilaði félagið 63 milljóna evra, 4,9 milljarða króna hagnaði. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins í gær. Hagnaðurinn jókst um 55 prósent frá fyrra ári og þá var 43 prósenta veltuaukning milli ára, en veltan var alls 452 milljónir evra eða 35,3 milljarðar króna, eftir því sem kemur fram í tilkynningu frá Actavis. Fram kom í máli Róberts Wessmanns, forstjóra fyrirtækisins, að félagið horfði til fjárfestinga í félögum í Mið-Evrópu, á Indlandi og í Bandaríkjunum. Ennig væri Japan áhugavert markaðssvæði. Hann sagði enn fremur að mikil samlegðaráhrif fælust í sölu lyfja til Bandaríkjanna og Evrópu. Bandaríkjamenn neyta helmings þeirra lyfja sem framleidd eru í heiminum. Því væri sá markaður afar áhugaverður fyrir félagið. Þá sagði Róbert að félagið hygðist selja vörur undir eigin merki í Bandaríkjunum. Á fundinum kom fram að nokkur félög hefðu bæst í samstæðuna á liðnu ári og að níu lyf hefðu farið á markað á árinu 2004, þar af var Actavis fyrst á markað með fimm þeirra. 60 prósenta vöxtur var í sölu á eigin vörumerkjum og 24 prósenta vöxtur í sölu vara til þriðja aðila. Gert er ráð fyrir að 50 ný lyf fari á markað frá Actavis á þessu ári. Á fundinum var samþykkt að greiða hluthöfum 10 prósenta arð af nafnvirði hlutafjár en það svarar til 5,1 prósents af hagnaði félagsins árið 2004. Þá var samþykkt að veita stjórn félagsins heimild til þess að auka hlutafé um 450 milljónir króna að nafnvirði. Stjórn félagsins var endurkjörin, en hana skipa: Björgólfur Thor Björgólfsson, Andri Sveinsson, Karl Wernersson, Magnús Þorsteinsson og Sindri Sindrason.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×