Viðskipti innlent

Tæknival hagnast um 608 milljónir

Hagnaður Tæknivals í fyrra var 608 milljónir króna en tap hafði verið á rekstrinum nokkur ár á undan. Árið 2003 var tapið 289 milljónir. Afkomubatann má rekja til þess að í upphafi árs í fyrra seldi Tæknival smásöluverslanir sínar, BT og Office 1, til Skífunnar og námu sölutekjurnar ríflega milljarði króna. Umsvif Tæknivals hafa því minnkað nokkuð á milli ára. Kostnaður í rekstrinum lækkaði til að mynda um ríflega fimmtíu prósent. Sigrún Guðjónsdóttir, forstjóri Tæknivals, segir að stefnt sé að því að reksturinn í ár skili hagnaði. "Það fór heilmikið í kostnað vegna sölunnar og breytingar á rekstri fyrirtækisins og mikið þróunarstarf fór fram," segir Sigrún. Hún segir að ef litið sé framhjá kostnaði og tekjum vegna sölunnar og breytinga í kjölfar hennar hafi reksturinn verið nálægt því að vera "á núllinu" en hún býst við því að hagnaður verði á þessu ári. Hún segir að félagið beini kröftum sínum nú eingöngu að kjarnanum í starfseminni, sem sé þjónusta við fyrirtæki og stofnanir. "Það er eins og það hafi þurft að vekja athygli á því aftur því þessi þáttur starfseminnar hefur kannski fallið í skuggann á síðustu árum." Í Hálf fimm fréttum greiningardeildar KB banka í gær var tilkynning Tæknivals til Kauphallar Íslands gagnrýnd og sagt að ársreikningurinn sjálfur gæfi ekki tilefni til þeirrar umfjöllunar sem félagið sendi frá sér í gær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×