Innlent

Vilja upplýsingar um starfslok

Fjármálaeftirlitið hefur krafið stjórn Sameinaða lífeyrissjóðsins um upplýsingar um starfslokasamning sem fyrruverandi stjórn sjóðsins gerði við Jóhannes Siggeirsson, þáverandi framkvæmdastjóra. Einnig er óskað upplýsinga um starfslok hans í síðasta mánuði. Stjórn sjóðsins vék Jóhannesi úr starfi í síðasta mánuði vegna óánægju með afkomu sjóðsins næstu ár á undan. Þá kom í ljós að árið 2000 gerðu þáverandi formaður og varaformaður sjóðsins starfslokasamning við Jóhannes sem tryggir honum laun í 30 mánuði eftir að hann lætur af störfum. Samningurinn hefur verið harðlega gagnrýndur, einkum og sér í lagi að samningurinn var ekki lagður fyrir stjórn sjóðsins eða endurskoðanda. Stjórn Félags járniðnaðarmanna samþykkti í gærkvöld harðorða ályktun þar sem starfslokasamningurinn var gagnrýndur og skorað á stjórn sjóðsins að kanna hvort hægt væri að hnekkja honum. Þorgeir Jósefsson, formaður stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins, sagði í yfirlýsingu í gær að Fjármálaeftirlitið fengi allar tiltækar upplýsingar um samninga og starfslok Jóhannesar en ítrekaði að stjórnin hefði ekki talið sér annað fært en að standa við samninginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×