Erlent

Vopnasölubann í brennidepli

Þrýst var á leiðtoga Evrópusambandsins á fundi þeirra í Brussel í gær að fresta ákvörðun um að aflétta í áföngum vopnasölubanni á Kína. Bandaríkjastjórn hefur beitt sér af hörku í málinu og það ásamt nýjum kínverskum lögum sem gera ráð fyrir að Kínaher sé heimilt að ráðast inn í Taívan ef þarlendir reyna að ganga lengra í sjálfstæðisátt en orðið er, hefur hvort tveggja orðið til þess að vöflur hafa komið á Evrópuleiðtogana við að aflétta vopnasölubanninu sem sett var á eftir atburðina á Torgi hins himneska friðar sumarið 1989. Kínversk stjórnvöld brugðust einnig reiðilega við fregnum um að svo kynni að fara að horfið yrði frá áformum um að aflétta banninu fyrir lok júní í ár. Talsmaður Kínastjórnar sagði bannið "pólitíska mismunun" sem ekki ætti lengur rétt á sér. Breski utanríkisráðherrann Jack Straw lét hafa eftir sér að áframhaldandi mannréttindabrot í Kína og nýju lögin um Taívan hefðu skapað "mjög erfitt pólitískt andrúmsloft" fyrir tilburði til að aflétta vopnasölubanninu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×