Innlent

Tímamótasamningur

Heildaráhrif kjarasamnings Félags framhaldsskólakennara við ríkið nema 21 prósenti á samningstímanum; frá 1. febrúar 2005 til aprílloka 2008. Samningurinn felur í sér sömu hækkanir og á almennum vinnumarkaði. Stofnanasamningur verður gerður innan hvers framhaldsskóla. "Með samningnum er verið að styrkja innra starf skólanna. Við erum að þróa áfram þá markmiðssetningu að styrkja innra starfið, efla skólastarf og umbætur í framhaldsskólum. Að öðru leyti er samningurinn á sömu nótum og hjá BHM-félögunum," segir Aðalheiður Steingrímsdóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. Framhaldsskólakennarar taka upp sams konar launatöflu og launakerfi og BHM-félögin. Ný launatafla tekur gildi 1. maí 2006. Samkvæmt henni verða lægstu laun 200 þúsund krónur á mánuði en í dag eru þau 190 þúsund krónur. "Þetta er tímamótasamningur. Í fyrsta lagi erum við að taka upp sömu launatöflu og sama launakerfi og BHM-félögin. Í öðru lagi er verið að styrkja skólastarfið og innra starf skólanna. Í þriðja lagi er ný hugsun, að efla starfsþróun kennara og framgang þeirra í starfi faglega séð. Samningurinn felur líka í sér ávinning og sóknarfæri til lengri tíma litið," segir hún. Kjarasamningur framhaldsskólakennara er í grunninn gjörólíkur kjarasamningi grunnskólakennara. Grunnskólakennarar sömdu miðlægt en framhaldsskólakennarar eru með rammasamning og svo nánari útfærslu í stofnanasamningum í skólunum. "Hvað kjaralegan ávinning varðar höfum við vissulega haft samning grunnskólakennara til hliðsjónar við okkar samningagerð. Að því leyti hafði hann áhrif á samningaferlið hjá okkur," segir hún. Kjarasamningur framhaldsskólakennara verður kynntur í framhaldsskólunum eftir páska. Stefnt er að því að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar verði ljós í byrjun apríl.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×