Viðskipti innlent

Tillögur á næstu dögum

Einkavæðingarnefnd vill ekki gefa upp hvenær endanleg tilhögun einkavæðingar Símans verður tilkynnt en Jón Sveinsson, formaður nefndarinnar, segir að það sé spurning um daga fremur en vikur hvenær endanlegar tillögur munu liggja fyrir. Jón vildi ekki staðfesta hvort að ráðgjafafyrirtækið Morgan Stanley hefði skilað endanlegum tillögum sínum. "Við erum að kasta á milli okkar ákveðnum hugmyndum," segir Jón. Heimildir herma að til umræða sé að meta tilboðsgjafa út frá þremur þáttum. Í fyrsta lagi því verði sem í boði er. Í öðru lagi verið litið til framtíðarsýnar tilvonandi eigenda og þá sérstaklega hvaða augum þeir líta starfsemi fyrirtækisins á landsbyggðinni. Þriðji þátturinn sem sagður er koma til álita er hvort tilboðsgjafar hafi innanborðs aðila með reynslu og þekkingu á slíkum rekstri. Mjög hefur verið rætt um að fjárfestingarfélagið Meiður undirbúi kaup á Símanum en vitað er að margir aðrir eru í startholunum og tilbúnir að leggja út í vinnu við tilboðsgerð um leið og endanleg niðurstaða ríkisstjórnarinnar um tilhögun sölunnar liggur fyrir. Hlutabréf í Símanum hækkuðu í verði í Kauphöll Íslands í dag og er fyrirtækið nú metið á ríflega 73 milljarða króna á markaði. Þess ber hins vegar að geta að einungis mjög lítill hluti hlutafjárins er á markaði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×