Erlent

Segja lögreglu hafa klúðrað málum

Fangauppreisn á Filippseyjum lauk í nótt með því að lögregla réðst til atlögu og felldi 22 uppreisnarseggi, þar á meðal þrjá háttsetta meðlimi Abu Sayaf hryðjuverkahópsins. Sérfræðingar telja að lögreglan hafi klúðrað málunum og segja að hefnd sé óumflýjanleg. Uppreisnin hófst í gærmorgun þegar nokkrir fangar réðust á fangaverði, myrtu þrjá þeirra og reyndu að flýja. Hópurinn laut forystu fanga úr Abu Sayaf hryðjuverkahópnum sem talið er að hafi tengsl við al-Qaida samtökin. Lögregla umkringdi fangelsið og í upphafi var reynt að semja við uppreisnarseggina, sem kröfðust þess að mál þeirra yrðu fljótlega tekin upp af dómstólum, öryggi þeirra yrði tryggt og að þeir fengju að koma skoðunum sínum á framfæri bæði við yfirvöld og fjölmiðla. Í nótt ákvað lögregla hins vegar að ráðast til atlögu eftir að fimmtán mínútna frestur, sem uppreisnarhópnum var gefinn til að gefast upp og afhenda vopn sín, rann út. Alls létust 22 fangar í lögregluárásinni, þar af þrír meðlimir Abu Sayaf. Þessi samtök berjast fyrir sjálfstæði Mindanao-héraðs í suðurhluta Filippseyja. Þetta eru fámenn samtök en hafa verið áberandi síðustu árin vegna sprengjuárása og sérstaklega rána á vestrænum ferðalöngum. Yfirvöld segja að forsvarsmenn Abu Sayaf hafi persónuleg tengsl við hryðjuverkaleiðtogana Osama bin Laden og Ramsi Youssef sem skiplagði fyrstu hryðjuverkaárásina á tvíburaturnana í New York. Hryðjuverkasérfræðingar telja að filippseyska lögreglan hafi ekki tekið rétt á þessari fangauppreisn og eigi eftir að súpa seyðið af því. Forystumenn Abu Sayaf voru líka fljótir að hóta blóðugum hefndarárásum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×