Viðskipti innlent

Mikill hagvöxtur

Að mati Hagstofunnar var 5,2 prósenta hagvöxtur í fyrra. Hagvöxturinn er því heldur meiri en gert hafði verið ráð fyrir en mikill vöxtur í einkaneyslu er helsti drifkraftur hagvaxtar. Einkaneyslan jókst um 7,5 prósent og hafði það meðal annars í för með sér að halli á viðskiptum við útlönd var töluverður, enda jókst neyslan hraðar en innlend framleiðsla. Tölurnar benda til þess að nú ríki mikið góðæri. Á síðasta fjórðungi ársins í fyrra var einkaneyslan 9,2 prósentum meiri en á sama tíma árið áður. Fram kemur hjá Hagstofunni að þetta sé að stórum hluta rakið til þess að mikið var keypt af bílum og öðrum neysluvörum frá útlöndum. Annar stór þáttur í hagvextinum í fyrra er aukning í fjárfestingu sem vegur næstmest á eftir einkaneyslunni. Raunhækkun samneyslu, sem eru útgjöld ríkis og sveitarfélaga, er talin hafa verið 1,3 prósent. Landsframleiðslan í fyrra var 859 milljarðar króna en var 797 milljarðar árið 2003.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×