Viðskipti innlent

Bakkavör hækkar hratt

Bakkavör hefur hækkað um nítján prósent í Kauphöll Íslands frá því stjórnendur félagsins tilkynntu um kaup á breska matvælafyrirtækinu Geest í fyrradag. Í gær gaf KB banki út nýtt verðmat á félaginu og telur nú að bréf í félaginu séu vanmetin á markaði. Greiningardeild KB banka gaf síðast út mat á verðmæti Bakkavarar í lok júní í fyrra og þá taldi greiningardeildin að eðilegt verð fyrir bréfin væri 24,8. Nú telur KB banki hins vegar að hvert hlutabréf sé 36,4 krónu virði sem er nokkuð hærra en verð á markaði. Hlutabréf í Bakkavör hafa þó hækkað mjög mikið á síðustu vikum. Markaðsvirði félagsins er nú ríflega 53 milljarðar króna og hefur frá áramótum hækkað um ríflega 36 prósent. Gengi bréfanna við lokun markaðar í gær var 33,2. Kaup Bakkavarar á Geest komu ekki á óvart á markaði en miklil hækkun í kjölfar fréttanna skýrist meðal annars af því að Bakkavör þarf ekki að gefa út nýtt hlutafé til að fjármagna kaupin. Fastlega hafði verið búist við að slík hlutafjáraukning yrði nauðsynleg og hafði stjórn félagsins heimild hlutahafafundar til þess.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×