Viðskipti innlent

Hreifst af Ólafi

Einn þeirra sem tók sæti í stjórn Samskipa á aðalfundi félagsins í fyrradag er Flemming R. Jacobs fyrrum forstjóri danska skipafélagsins Mærsk. Jacobs er einnig stjórnarformaður skipafélagisns Neptune Orient Lines. Að sögn Ólafs Ólafssonar, starfandi stjórnarformanns Samskipa, er það stefna hjá Samskipum að fá í auknum mæli utanaðkomandi stjórnarmenn sem geta fært þekkingu inn í fyrirtækið. Hann segir reynslu og sambönd Jacobs koma til með að verða Samskipum dýrmæt. Jacobs segir að hann hafi fylgst með vexti Samskipa á undanförnum árum og hrifist af stefnu félagsins. "Félagið skilar nú góðum hagnaði og er stjórnað af mjög hæfu fólki," segir Jacobs. Hann segist sérstaklega hafa hrifist af Ólafi Ólafssyni stjórnarformanni og þeim áherslum sem hann hefur lagt til grundvallar rekstrinum. "Ólafur leggur áherslu á arðbæran vöxt en einnig það að gefa starfsmönnum færi til að ná árangri og þroskast. Þetta tvennt skiptir mig mjög miklu máli," segir Jacobs. Jacobs hefur setið í stjórnum fjölmargra skipafélaga á um fjörtíu ára ferli í geiranum. Hann er því eftirsóttur til setu í stjórnum fyrirtækja en hann segir að mestu ráði um verkefnaval hvernig honum falli framtíðarsýn forsvarsmanna fyrirtækjanna. "Það eru alltaf áhuginn og neistinn í auga fólksins sem ræður því hvort ég tek að mér svona verkefni. Ég hef séð þennan neista hjá Ólafi Ólafssyni og þess vegna finnst mér gaman að fá að leggja þessu lið," segir Jacobs. Hann segist telja að vöxtur í flutningastarfsemi haldi áfram á næstu áratugum og telur að Samskip hafi færi á að vaxa áfram á þeim markaði.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×