Erlent

Tsjetsjenar berjast áfram

Tsjetsjenskir uppreisnarmenn hétu því í gær að halda áfram baráttunni fyrir algerum aðskilnaði Tsjetsjníu frá Rússlandi, eftir að það fréttist í fyrradag að leiðtogi þeirra, Aslan Maskhadov, hefði fallið eftir að rússneskir sérsveitarmenn umkringdu hann á felustað sínum í norðanverðri Tsjetsjníu. Á rússneska þinginu var dauða Maskhadovs fagnað sem merki um að Rússar væru á réttri leið í sínu stríði gegn hryðjuverkum, sem beinist aðallega gegn íslömskum uppreisnarmönnum og aðskilnaðarsinnum í Tsjetsníu og öðrum landamærahéruðum Rússlands í suðri. Yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB tilkynnti Vladimír Pútín forseta í gær að Maskhadov hefði fallið í áhlaupi sérsveita í bænum Tolstoy-Yurt. Erindreki Maskhadovs í Lundúnum, Akhmed Zakayev, staðfesti að skæruliðaleiðtoginn væri allur. ITAR-Tass-fréttastofan rússneska hafði síðar eftir yfirmanni rússneska herliðsins í Tsjetsjníu, Grígorí Fomenko, að búið væri að bera formlega kennsl á lík Maskhadovs. Skæruliðar hétu því að halda hinni vopnuðu baráttu áfram. Með "ofbeldisfullum dauðdaga [Maskhadovs] er nýtt tímabil hafið í sögu hernaðarlegrar glímu Rússa og Tsjetsjena, sem útilokar ekki aðeins samningaviðræður, heldur setur stríðinu engar hömlur," var haft eftir Movladi Udugov, hugmyndafræðingi aðskilnaðarsinna, á vefsíðu sem þeir halda úti. Af leiðtogum Tsjetsjena þótti Maskhadov maður hófseminnar í samanburði við menn eins og Shamil Basajev, harðan wahhabi-múslima sem lýst hefur ábyrgð á fjölda skæðra hryðjuverka, þar á meðal í skólanum í Beslan í fyrrahaust og í leikhúsi í Moskvu árið 2002. Líklegt þykir því að dauði Maskhadovs hleypi enn meiri hörku í átökin í Tsjetsjníu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×