Erlent

Sögð óvelkomin í Hvíta húsið

Það nýjasta af giftingaráformum Karls Bretaprins og Camillu Parker-Bowles er að þau hafa verið úrskurðuð lögleg. Þó er fjarri því að allir séu sáttir við þau. Á þriðjudag úrskurðaði embætti það sem heldur utan um hjúskaparskráningar í Englandi og Wales að vísa skyldi frá þeim lagalegu mótbárum sem lagðar hefðu verið fram við borgaralegri giftingu Karls og Camillu. Ætlunin er að hún fari fram í Windsor, vestan Lundúna, þann 8. apríl. Óbilandi vinsældir Díönu prinsessu heitinnar, sem Karl var skilinn við áður en hún lést af slysförum fyrir sjö og hálfu ári, valda því að ýmsir líta svo á að brúðkaup Karls og Camillu sé vanvirðing við minningu Díönu. Aðdáendur hennar hyggjast leggja blómsveig að Kensington-höll, bústað Díönu síðustu æviárin, daginn sem Karl gengur að eiga Camillu (en hana kalla Díönuaðdáendurnir "Kúmillu"). Engin fordæmi eru fyrir því að breskur ríkisarfi giftist utan kirkjunnar, en það er talin eina leiðin fyrir Karl og Camillu þar sem Enska biskupakirkjan er mjög treg til að leggja blessun sína yfir giftingar fráskilins fólks. Camilla skildi við sinn fyrri eiginmann. Af þessari sömu ástæðu kvað George W. Bush Bandaríkjaforseti hafa ákveðið að Karli og Camillu skyldi ekki boðið til kvöldverðar í Hvíta húsinu, en um alllangt skeið hefur opinber heimsókn ríkisarfans til Bandaríkjanna verið undirbúin. Til stóð að þetta yrði fyrsta opinbera ferðin sem þau færu í eftir hjónavígsluna. Breska blaðið Sunday Mirror greinir frá því að fulltrúar Hvíta hússins hafi tilkynnt bresku hirðinni að Camilla væri ekki velkomin í Hvíta húsið. Forsetinn strangkristni hafi tjáð aðstoðarmönnum að hann álíti það "óviðeigandi" fyrir sig að taka á móti nýgiftu hjónunum. Segir blaðið þetta koma undirbúningi ferðarinnar í uppnám.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×