Viðskipti innlent

Bakkavör gulltryggir Geest

Bakkavör mun ekki þurfa að auka hlutafé sitt vegna kaupa á Geest. Bakkavör lagði í gær fram formlegt tilboð í félagið eftir að niðurstaða áreiðanleikakönnunar Geest lá fyrir. Heildarverðmæti viðskiptanna er um 80 milljarðar króna. Bakkavör hafði heimild til hlutafjáraukningar og segir Lýður Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar, að sú heimild hafi opnað þeim dyrnar. Hann segir að í ljósi hagstæðrar fjármögnunar og þess hve breskir bankar voru tilbúnir að lána hafi verið tekin ákvörðun í stjórn fyrirtækisins um að nýta ekki heimild til aukningar hlutafjár vegna kaupanna. "Við horfum til þess að samsetning fjármögnunar fyrirtækisins sé sem hagkvæmust fyrir hluthafana." Barclaysbanki lánar Bakkavör 500 milljónir punda eða 58 milljarða króna vegna kaupanna sem er hæsta einstaka erlenda lán sem íslenskt einkafyrirtæki hefur fengið. KB banki lánar 8,7 milljarða króna. KB banki sá einnig um ráðgjöf við kaupin. Bakkavör átti fyrir fimmtungshlut í Geest sem keyptur var á síðasta ári. Vextir lánanna eru einkar hagstæðir eða 1,5 prósentum yfir millibankavöxtum. Hagstæð lán og að Bakkavör eykur ekki hlutafé kom markaðnum á óvart og hækkuðu bréf Bakkavarar um tæp tíu prósent í gær. Geest er afar skuldlétt fyrir kaupin og hagnaður eins árs fyrir afskriftir og fjármagnsliði dugði fyrir öllum skuldum þess. Mat eigenda Bakkavarar er að fjárfestingarþörf Geest sé minni til nánustu framtíðar en verið hefur sem auðveldar endurgreiðslu skulda vegna kaupanna. Með formlegu tilboði má segja að nánast sé öruggt að Bakkavör eignist Geest. Formleg yfirtaka verður í maí og líklegt er að Geest komi inn í reikninga Bakkavarar frá og með fyrsta maí. Með sameiningunni verður til stærsta félag sinnar tegundar á Bretlandseyjum með leiðandi stöðu á sínum markaði. Forsvarsmenn Bakkavarar sjá ýmsa samlegðarmöguleika í dreifingu og fleiri þáttum starfseminnar. Þegar frestast boðuð fjárfesting Bakkavarar í nýrri verksmiðju fyrir ríflega tvo milljarða vegna þess að borð er fyrir báru í verksmiðjum Geest. Samanlögð velta Geest og Bakkavarar á síðasta ári var 122 milljarðar króna. Sameinað félag verður stærsti einstaki birgir fyrir Tesco verslunarkeðjuna sem er leiðandi á breskum matvörumarkaði. Með kaupunum á Geest fjölgar einnig í viðskiptamannahópi félagsins. Geest er auk þess með starfsemi á meginlandi Evrópu. Bretlandsmarkaður er lengst kominn í þróun og sölu tilbúinna máltíða, en búist er við að önnur vestræn samfélög fylgi í kjölfarið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×