Erlent

Saab framleiddur í Þýskalandi

Eitt af óskabörnum Svíþjóðar er á leiðinni frá Svíþjóð. Saab-bíllinn, sem hefur verið framleiddur í Svíþjóð síðan 1946, verður í framtíðinni framleiddur í Þýskalandi. Ástæða fyrir því að eitt af helstu vörumerkjum sænska stálsins er á leið úr landi, að hluta til alla vega, er margra ára taprekstur Saab-bílaverksmiðjunnar í Trollhettan, rétt fyrir utan Gautaborg. Þar eru framleiddir um 110 þúsund Saab bílar á ári en eigendur Saab, bandaríski bifreiðaframleiðandinn General Motors, telja að ársframleiðslan verði að ná 200 þúsund bílum til að hagnaður verði af framleiðslunni. Eigendurnir hafa nú ákveðið að byggja næstu tegund Saab á sama grunni og Opel Vectra og ætla því að flytja framleiðsluna til Opel-verksmiðjanna í Þýskalandi til að draga úr kostnaði. Það tekst meðal annars vegna þess að verkamennirnir í þýsku Opelverksmiðjunum hafa fallist á að sleppa samningsbundnum launahækkunum þessa árs, þeir eru tilbúnir til að auka sveigjanleika í starfi og stytta sumarleyfin sín. Verksmiðjan í Svíþjóð verður þó starfrækt áfram en þeir 5000 starfsmenn Saab sem þar vinna óttast engu að síður að þetta sé upphafið að endalokum Saab-framleiðslu í Svíþjóð og það sé einungis tímaspursmál hvenær það hætti að standa á Saab-bílunum: „Tilverkat i Sverige“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×