Innlent

Stjörnuleitin slær í gegn

Fréttablaðið er mest lesna dagblað landsins samkvæmt nýrri könnun IMG Gallup. Að meðaltali lesa 67,1 prósent blaðið daglega sem er örlítið minni lestur en í könnun Gallups frá nóvember á síðasta ári. Samkvæmt könnuninni lesa 51,9 prósent Morgunblaðið daglega en í síðustu könnun var það hlutfall 49,4 prósent. Hástökkvari dagblaða er DV, en nú lesa 20,1 prósent landsmanna blaðið daglega en samkvæmt síðustu könnun voru það 16,7 prósent. Vinsælasti frumsýndi sjónvarpsþátturinn í febrúar var Idol-stjörnuleit, sem sýnd er á Stöð 2. Rétt tæplega helmingur þjóðarinnar fylgdist með. Í nóvember þegar síðasta könnun var gerð, voru það 43,3 prósent landsmanna sem horfðu á Idol en nú eru það 49,5 prósent. "Að vinsælasta sjónvarpsefnið sé sent út í læstri dagskrá, það hlýtur að vera óvanalegt," segir Heimir Jónasson, dagskrárgerðarmaður á Stöð 2. Hann segir jafnframt að með þessari könnun sé brotið blað í íslenskri sjónvarpssögu. Aldrei fyrr hafi heildaráhorf á Stöð 2 verið svona mikið, sem komi til vegna samspils frábærrar dagskrár og góðrar markaðssetningar. Það er fyrrum langvinsælasti sjónvarpsþátturinn, Spaugstofan, sem nú er í öðru sæti. Nú eru það 48,6 prósent sem horfa á Spaugstofuna, en í síðustu könnun 59,1 prósent. Þá minnkar áhorf á þættinum Laugardagskvöld með Gísla Marteini. Nú horfa 39,3 prósent á þáttinn, en voru 53,9 prósent. Fréttir Ríkissjónvarpsins hafa sama áhorf og í nóvember, 43,3 prósent. En áhorf á fréttir Stöðvar 2 hefur dalað lítillega, úr 34,4 í 33,5 prósent nú. Vinsælasti þátturinn á Skjá einum var Innlit-útlit, og mældist hann með 20,6 prósenta áhorf. Í könnuninni var fólk spurt hvort það hefði haft frían aðgang að fjölmiðlum í vikunni sem könnunin var gerð. Alls sögðust 6,9 prósent hafa fengið Morgunblaðið frítt. Þá sögðust 10,3 prósent hafa fengið DV frítt. 3,8 prósent sögðust hafa fengið Stöð 2 frítt og 1,6 höfðu fengið Sýn frítt. Könnun Gallups var dagbókarkönnun sem gerð var dagana 4. til 10. febrúar. Í úrtaki voru 1.266 Íslendingar á aldrinum 12 til 80 ára, valdir með tilviljunaraðferð úr þjóðskrá. Nettósvarhlutfall var 63,3 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×