Erlent

Ráðist gegn Beslan-mönnum

Fimm manns féllu og fjórir voru handteknir í áhlaupi rússneskra lögreglusveita gegn hópi fólks sem grunað er um aðild að gíslatöku og morðum í barnaskóla í Beslan í Norður-Ossetíu síðastliðið haust. 330 týndu lífi í Beslan, mest skólabörn. Nikolai Shepel, saksóknari í borginni Rostov, skýrði frá þessu í gær en vildi hvorki segja hvar né hvenær áhlaupið fór fram. Þeir sem voru handteknir eru grunaðir um að hafa undirbúið gíslatökurnar en sjálfir gíslatökumennirnir féllu flestir í umsátrinu á sínum tíma. Hinir handteknu eru einnig grunaðir um að hafa sprengt upp lögreglustöð í Ingúsetíu í fyrrasumar þar sem 90 fórust. Reiði og óþolinmæði í garð yfirvalda fer vaxandi á meðal almennings í Rússlandi vegna þess hve langan tíma hefur tekið að upplýsa harmleikinn í Beslan. Margir telja að stjórnvöld reyni að breiða yfir hversu auðveldlega ódæðismönnunum tókst að smygla vopnum og sprengjum til Beslan. Tsjetsjenski aðskilnaðarsinninn Shamil Basajev gengur enn laus en hann er talinn hafa skipulagt voðaverkið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×