Erlent

80 milljónir munu deyja fyrir 2025

Níutíu milljónir Afríkubúa munu verða smitaðir af HIV-veirunni árið 2025 fari þjóðir heimsins ekki að taka við sér í baráttunni. Ný skýrsla Sameinuðu þjóðanna dregur upp dökka mynd af stöðu og horfum. Alnæmisvarnastofnun Sameinuðu þjóðanna UNAIDS sendi á föstudaginn frá sér skýrslu þar sem reynt er að meta hvaða framtíð bíður HIV-smitaðra Afríkubúa og hvernig þjóðir heimsins muni bregðast við þeim skelfilega vanda sem álfan glímir nú við. Til greina koma þrjár mögulegar spár en þær gera allar ráð fyrir að alnæmisfaraldurinn eigi eftir að ná hámarki sínu og að í það minnsta 67 milljónir Afríkubúa muni deyja fyrir árið 2025. Versta dæmið gerir ráð fyrir að fjárframlög og aðstoð til HIV-smitaðra muni standa í stað. Verði sú spá að veruleika er útlit fyrir að tala þeirra Afríkubúa sem deyja úr alnæmi muni fjórfaldast og verði árið 2025 áttatíu milljónir. Níutíu milljónir manna ganga þá með HIV-veiruna, samanborið við 25 milljónir í dag. Besta spáin gerir ráð fyrir að framlög til málaflokksins muni tvöfaldast og að löndum Afríku muni takast að gera gagngerar endurbætur á heilbrigðiskerfum sínum. Ef þessar forsendur standast verður hægt að bjarga sextán milljón mannslífum og 43 milljónum manna frá því að smitast. UNAIDS telur að 12.000 miljarða króna þurfi til þess að besta spáin geti ræst en þau fjárframlög sem þegar hefur verið lofað hrökkva alls ekki til. "Ef alnæmisfaraldurinn verður jafn skæður árið 2025 eins og í dag er það ekki vegna þess að það er óumflýjanlegt heldur vegna þess að pólitískan vilja skorti í heiminum til að gera eitthvað í málunum," segir í aðfararorðum skýrslunnar. UNAIDS bendir á að í níu Afríkulöndum séu lífslíkur íbúanna undir fjörutíu árum vegna veikinnar. 6.500 manns deyja á degi hverjum og ellefu milljónir barna eru munaðarlaus. Á síðasta ári smituðust rúmar þrjár milljónir manna af HIV-veirunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×