Viðskipti innlent

Kaupið heystakkinn

Ef ég hefði vitað um framtíðarárangur Warren Buffet 1973 þegar ég skrifaði A Random Walk Down Wall Street, þá hefði ég að sjálfsögðu ráðlagt fólki að fjárfesta í sjóð hans, Bekrshire Hathaway, frekar en í vísitölusjóði," segir Burton G. Malkiel, hagfræðiprófessor við Princeton, sem staddur er hér á landi í boði Íslandsbanka. "Framtíðin mun einnig geta af sér fjárfesta eins og hann. Vandinn er að við vitum ekki hverjir þeir eru og að finna þá er eins og að leita að saumnál í heystakki. Því segi ég kaupið heystakkinn." Malkiel setti fram hugmyndir sínar um að besta leið venjulegs fjárfestis væri að kaupa í vísitölusjóðum í bók sinni árið 1973 og kenningar hans hafa staðist tímans tönn. Bók hans er ein af biblíum fjárfestingarfræðinnar. Malkiel segir að miðað við mælikvarða sem hann leggur til grundvallar og hafi gefist vel megi ekki búast við tveggja stafa tölu í ávöxtun í nánustu framtíð. "Ég held að fjárfestar verði að venjast þeirri tilhugsun að tveggja stafa ávöxtun sé ekki í boði til lengri tíma litið nú." Hann segir hlutabréf þó ekki hátt í sögulegu samhengi eins og megi ætla við fyrstu sýn. Mat hans sé að markaðurinn sé eðlilega verðlagður miðað við vexti annarra fjárfestingarkosta. Áhætta og ávöxtun eru hugtakapar í fjárfestingum. Aukin áhætta gefur von um betri ávöxtun. Malkiel segir að þegar litið sé á hlutabréf á minna þróuðum mörkuðum og skuldabréf í hæsta áhættuhópi, þá séu menn ekki verðlaunaðir nægjanlega fyirir aukna áhættu. Boðskapur hans sé nú eins og fyrir þrjátíu árum að kaupa í vísitölusjóðum þar sem rekstrarkostnaður er minni en í virkum sjóðum. Sagan sýni að viðskiptakostnaður og rekstrarkostnaður dragi úr ávöxtun þannig að vísitölusjóðir hafi vinninginn. Nema menn séu svo heppnir að finna nálina í heystakknum. Malkiel fræddi íslenska fagfjárfesta um sjónarmið sín á hádegisfundi í gær og síðan almenna fjárfesta á fjölmennum fundi á hótel Nordica í gærkvöld.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×