Innlent

Tímamót í farþegaflugi

Kaup Flugleiða á tveimur nýjum Boeing 787 Dreamliner-þotum marka tímamót í farþegaflugi hér á landi og gera flugfélaginu kleift að fljúga beint til nánast allrar heimsbyggðarinnar. Stjórnarformaður Flugleiða segir að með kaupunum sé verið að hugsa til framtíðar. Heildarverðmæti vélanna tveggja nemur um fimmtán milljörðum króna en kaupréttur er um fimm vélar til viðbótar. Flugleiðir er fyrsta evrópska áætlunarflugfélagið sem semur um kaup á Dreamliner-þotum en verið er að vinna að lokahönnun vélanna. Stefnt er að tilraunaflugi árið 2007 en fyrsta þotan verður tilbúin í notkun ári síðar og stefna Flugleiðir, eða Icelandair, að taka vélarnar tvær í notkun árið 2010. Vélunum er spáð miklum vinsældum en þær verða mun hagkvæmari í rekstri og öll aðstaða verður betri og og þægindi meiri fyrir farþega. Flugdrægni Dreamliner er gríðarleg og gerir Flugleiðum kleift að fljúga til nánast allrar heimsbyggðarinnar en þoturnar taka á milli 220 til 260 farþega. Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, segir að með vélunum sé verið að stíga stór skref inn í framtíðina. Þetta geri fyrirtækinu kleift að fljúga beint til staða sem ekki hafi verið hægt áður, t.a.m. Peking, Jóhannesborgar, Tókýó og fleiri staða. Í rauninni sé um að ræða nánast alla heimsbyggðian fyrir utan Ástralíu og Nýja-Sjáland. Ástæðan fyrir því að kaupin á vélunum fara fram svona löngu fyrir þann tíma sem áætlað er að taka þær í notkun er sú að þoturnar eru einfaldlega að verða uppseldar fyrir umræddan tíma að sögn Hannesar. Nauðsynlegt sé því að ganga frá kaupunum strax. Þar fyrir utan þarf að undirbúa vel þær miklu breytingar á samgöngum sem fylgja kaupunum á vélunum.
Tölvumynd af Dreamliner-þotu í litum Icelandair.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×