Innlent

Þrjú ár fyrir fíkniefnainnflutning

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær hinn 33 ára Árna Geir Norðdahl Þórðarson í þriggja ára fangelsi fyrir vörslu á um hálfu kílói á fíkniefnum og fyrir brot á skotvopnalögum. Árni var handtekinn ásamt hollenskri konu 12. nóvember síðastliðinn eftir að konan afhenti honum 235,77 grömm af kókaíni, sem hún hafði flutt innvortis til landsins. Konan var dæmd í árs fangelsi fyrir sinn þátt í málinu í janúar. Samkvæmt dómnum hafði Árni áður fengið rúm 800 grömm af hassi send til sín, selt hluta þess, en átti 212,8 grömm eftir þegar hann var handtekinn. Við húsleit á heimili Árna fundust kannabisefni og afsöguð haglabyssa sem ekki var leyfi fyrir. Árni Geir játaði sök að mestu leyti í málinu og kannaðist við að hafa skipulagt innflutning fíkniefna til landsins. Hann hefur áður hlotið dóma fyrir fíkniefnabrot og líkamsárás. Honum var gert að greiða allan sakarkostnað sem og laun verjanda síns. Verjandi Árna Geirs segir að ekki hafi verið ákveðið hvort dómnum verði áfrýjað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×