Lífið

Segja ákvörðun niðurlægjandi

Lítilsvirðing. Niðurlæging. Þetta eru orðin sem notuð eru til að lýsa þeirri ákvörðun Elísabetar Bretlandsdrottningar að mæta ekki í brúðkaup sonar síns, Karls Bretaprins, og heitkonu hans, Camillu Parker Bowles. Þetta konunglega brúðkaup virðist vera að breytast í vandræðalegan skrípaleik. Það verður allt að hneyksli í höndum bresku konungsfjölskyldunnar. Nú er það brúðkaup hjónaleysanna Karls og Camillu. Yfirlýsing Elísabetar um að hún ætli ekki að vera viðstödd þegar ríkisarfinn og elsti sonurinn gengur í hjónaband á nýjan leik hefur hrist upp í bresku þjóðinni og sitt sýnist hverjum. Dickie Arbiter, sérfræðingur um bresku konungsfölskylduna, segir að ekki sé um ofanígjöf að ræða að hálfu drottningar. Þegar litið sé á hlutina sé miðaldra par að fara að gifta sig öðru sinni. Arthur Edwards, sem líka er sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni, er á öndverðum meiði og segir ákvörðun drottningar ofanígjöf. Ef sonur hans eða dóttir væri að gifta sig færi hann í brúðkaupið, hvar og hvenær sem það væri. Talsmenn drottningar segja að hún sé aðeins að virða óskir hjónaleysanna um að athöfnin verði fábrotin og láti lítið yfir sér. En þetta er ekki það eina því allt við undirbúning þessa brúðkaups virkar vandræðalegt og illa skipulagt: Þannig er til að mynda búið að flytja brúðkaupið úr Windsor-kastala og breyta því í borgaralega athöfn og það var fyrst í dag sem lögspekingar kváðu upp úr með að brúðkaupið fengið staðist lög. Allur þessi glundroði vekur grunsemdir. Edwards segir að konungsfjölskyldan geri allt annað rétt, hvort sem um er að ræða árþúsundaskiptin, krýningarafmæli og jarðarfarir. Í þessu tilviki sé hins vegar maðkur í mysunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.