Innlent

Getum lítið fylgst með

Sæmundur Hafsteinsson, forstöðumaður Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði, segir að fólki sé aldrei beint í ósamþykktar íbúðir en ekki sé fylgst sérstaklega með því hvort skjólstæðingar búi í ósamþykktu húsnæði eða ekki, t.d. með tilliti til brunavarna. Skýrt sé að enginn starfsmaður Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði leigi ósamþykkt húsnæði fyrir sína skjólstæðinga en auðvitað geti skjólstæðingur verið tímabundið í ólöglegu húsnæði "og við getum lítið fylgst með því enda varla okkar hlutverk," segir hann. Félagsþjónustan geti ekki stýrt því hvar skjólstæðingar leita sér sjálfir að íbúð. Fréttablaðið hefur afrit af færslum á reikning húseigenda við Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði. Þar sést að Félagsþjónustan greiddi 48.759 krónur fyrir leigu í júní á síðasta ári, annars sá skjólstæðingurinn um hana sjálfur. Sæmundur vill ekki ræða einstök tilvik. Verið er að skoða húsnæðismál í Hafnarfirði og kanna t.d. ósamþykkt húsnæði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×