Innlent

800 milljóna hótel nærri tilbúið

Nýtt hótel í gamla Eimskipafélagshúsinu við Pósthússtræti verður opnað í byrjun í apríl. Ferðaskrifstofan Heimsferðir keypti húsið á 510 milljónir króna í fyrra. Tómas. J. Gestsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Heimsferða, segir að samið hafi verið við Radisson-SAS, sem einnig rekur Hótel Sögu, um að reka hótelið. Framkvæmdir við að breyta húsinu í hótel hófust í september og segir Tómas þær hafa gengið mjög vel. Húsafriðunarnefnd gerði á sínum tíma athugasemd vegna eikarviðarklæðningar sem stóð til að rífa en Tómas segir að það mál hafi verið leyst. Klæðningin, sem er upprunaleg, verði einfaldlega klædd af. Alls verða 72 herbergi í hótelinu. Tómas segir að hótelið verði fjórar stjörnur plús, sem þýðir að það verði meðal flottustu hótela borgarinnar. Hann segir að byrjað sé að bóka og þegar séu nokkrar helgar í sumar fullbókaðar. Aðspurður segir hann að kostnaður við breytingarnar á húsinu sé um 300 milljónir króna. Heildarkostnaðurinn við þetta nýja hótel sé því ríflega 800 milljónir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×