Innlent

Allt í góðu hjá Brynju og Freyju

Fréttir af átökum framsóknarkvenna í Kópavogi og stofnun framsóknarkvennafélagsins Brynju til höfuðs Freyju sem starfað hefur um árabil hafa ekki náð eyrum vinkvennanna Brynju og Freyju sem búa í Grafarholti í Reykjavík. Brynja Björk Ásmundsdóttir og Freyja Barkardóttir eru í níunda bekk í Ingunnarskóla og fyrir utan að læra hafa þær áhuga á ferðalögum og öðru því sem stúlkur á fimmtánda ári hafa gaman af að gera. Þær eru hvorki í Framsóknarflokknum né öðrum stjórnmálaflokkum og hafa yfir höfuð ekki áhuga á pólitík. Fyrir vikið láta þær sér fátt um Kópavogslætin finnast. Brynja og Freyja kynntust í haust þegar þær settust saman í bekk í Ingunnarskóla. Þær kunna vel við sig í hverfinu nýja sem tekur á sig nýja mynd á hverjum degi. Aðallfundur Freyjunnar í Kópavogi er í dag. Brynja og Freyja ætla ekki á hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×