Innlent

Konur starfi meira í friðargæslu

Leita ber leiða til að auka tækifæri kvenna til að taka þátt í friðargæslu á vegum Íslands. Þetta er niðurstaða skýrslu sem tekin var saman að frumkvæði UNIFEM á Íslandi. Birna Þórarinsdóttir,  framkvæmdastjóri samtakanna hér á landi, kannaði starfsemi friðargæslunnar á árunum 1994-2004, einkum með hliðsjón af jafnréttis- og kynjasjónarmiðum. Birna komst m.a. að því að hlutur kvenna hjá friðargæslunni er rýr. Niðurstöðurnar sýna að verkefnaval á undanförnum árum hefur leitt til þess að konur hafi nú færri tækifæri en áður til að starfa fyrir gæsluna, auk þess að hafa litla aðkomu að stefnumótun hennar. „Þetta er eitthvað sem ég tel að þurfi að endurskoða,“ segir Birna. Birna segir að mikil vinna hafi verið lögð í að koma upp viðbragðslista hjá íslensku friðargæslunni. Á honum eru konur um 30% en aðeins 14% þeirra sem fóru út á vegum gæslunnar í fyrra voru konur. Þetta telur Birna miður heppilega þróun. Lausnin að hennar mati er að samþætta jafnréttissjónarmið öllu starfi friðargæslunnar. „Ég er ekki að segja að velja eigi friðargæsluverkefni fyrir Íslands hönd eingöngu út frá því hvort við getum sent jafn margar konur og karla. Ég er að benda á að það þurfi ávallt að skoða jafnréttissjónarmið þegar verið er að mynda stefnu og velja verkefni,“ segir Birna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×