Innlent

Ólafur hættur formennsku í FEB

Ólafur Ólafsson, fyrrverandi landlæknir, lét af formennsku í Félagi eldri borgara í Reykjavík á aðalfundi þess um helgina. Margrét Margeirsdóttir félagsráðgjafi var kjörin í hans stað en hún var áður varaformaður. "Þetta var ánægjulegur tími, skemmtilegur og upplífgandi," segir Ólafur en hann var kjörinn formaður árið 1998. "Það var gott að berjast með góðu fólki og auðvitað reyni ég að vinna áfram eins og ég get." Ólafur gagnrýnir hvernig stjórnvöld hafa brugðist við því sem hann segir sjálfsagðar kröfur eldri borgara. "Um þriðjungur ellilífeyrisþega hefur dregist afur úr öðrum hópum þegar horft er til tekna. Það er sagt að kaupmáttur hafi aukist um 40 til 50 prósent frá 1995 en hann hefur aðeins aukist um níu prósent hjá ellilífeyrisþegum. Og sé horft til ársins 1988 hefur kaupmátturinn minnkað." Ólafur er ósáttur við sinnuleysi stjórnvalda gagnvart öldruðum og segir hópinn afskiptan. "Eldri borgarar eiga greinilega ekki sæti í forgangsröðinni," segir hann og bendir á að auk kjaramálanna sitji margt á hakanum, til dæmis almenn aðstoð við þá sem þurfa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×