Innlent

Assan á heimaslóðum á Suðurlandi

Haförninn, eða assan, sem sleppt var austur í Grafningi á laugardag eftir að hafa verið undir mannahöndum til lækninga virðist vera á heimaslóðum á Suðurlandi.  Sjálfvirkur sendir var festur við hana og samkvæmt honum flaug hún um svæðið og síðan niður að Soginu, að öllum líkindum í ætisleit. Að sögn Ólafs Nilsen fuglafræðings er vitað að fjórir til sex ernir hafa undanfarin misseri haldið sig á vatnasvæði Ölfusár og Sogsins þótt ernir séu ekki enn farnir að verpa á svæðinu. Hins vegar kunni að styttast í það því í nokkur ár hafi arnarpar orpið að nýju í Leirársveit í Hvalfirði þar sem vitað var um arnarvarp löngu áður. Sömuleiðis eru sagnir um arnarvarp á Suðurlandi sem lagðist af líkt og í Hvalfirðinum. Örninn er alfriðaður eins og kunnugt er. Á næstu dögum fara vísindamenn aftur austur fyrir fjall með tæki til að nema sendingar frá erninum og kemur þá væntanlega í ljós hvort hægt verður að kalla þennan kvenkyns örn, sem hlotið hefur gælunafnið Erna, sunnlenskan örn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×