Innlent

Krefjast milljónatuga bóta

Iðnaðarráðuneytið hefur heimilað Landsneti að taka þrjár jarðir eignarnámi svo unnt sé að leggja Fljótsdalslínur 3 og 4 en um þær verður rafmagn leitt frá Kárahnjúkavirkjun til álversins í Reyðarfirði. Ráðuneytið hafnaði hins vegar ósk um eignarnám tveggja jarða til viðbótar á þeim forsendum að ekki þætti sýnt að samningar hafi verið reyndir til þrautar. Eignarnámið nær aðeins til þeirra hluta jarðanna sem línurnar liggja um. Í úrskurði ráðuneytisins kemur fram að almennar forsendur til eignarnáms séu uppfylltar og þess getið sérstaklega að efnahagsleg áhrif stórframkvæmdanna eystra verði mikil og varði fjölda fólks. Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, vonaðist til að eignarnám tæki til allra jarðanna fimm eins og óskað var en segir farið í samningaviðræður við eigendur jarðanna tveggja af heilindum. Hann býst þó ekki við miklum árangri. "Ég vona auðvitað að samkomulag náist en held að það sé frekar óraunhæft í ljósi þess hvernig mál hafa gengið fyrir sig. Málið er í prinsippinu peningamál og þetta er eingöngu spurning um bætur." Þórður segir himin og haf bera í milli þess sem jarðeigendur vilja og þess sem fyrirtækið hefur boðið. Hann vill ekki nefna fjárhæðir en segir þær háar. "Þetta eru tugir milljóna sem óskað er eftir og það eru allavega ekki tugir sem var boðið. Það er óhætt að segja það." Matsnefnd eignarnámsbóta mun úrskurða um bætur til eigenda jarðanna sem teknar verða eignarnámi. Nefndin mun líka ákvarða bætur til eigenda jarðanna sem iðnaðarráðuneytið hafnaði eignarnámsbeiðni á, takist samningar ekki. Guðrún Kjartansdóttir sem býr á Áreyjum vill fátt um málið segja en telur úrskurðinn réttlætismál og skilaboð til manna um að vanda til verka þegar land er tekið af fólki. Áreyjar er annar bæjanna sem ekki verða teknir eignarnámi. Áður höfðu samningar tekist við eigendur sextán jarða sem línurnar munu líka liggja um. "Bæturnar voru ekki ósanngjarnari en svo að mikill meirihluti tók því sem boðið var," segir Þórður Guðmundsson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×