Innlent

Nýtt þorp á Reykjanesi

Þorp hefur risið á Reykjanesi í tengslum við nýja virkjun Hitaveitu Suðurnesja. Þar búa um 40 manns að staðaldri en verða um 300 í sumar þegar framkvæmdir standa sem hæst. Það hefur lítið farið fyrir Reykjanesvirkjun sem er svo sannarlega stórframkvæmd, en heildarkostnaður við verkefnið er tíu milljarðar króna. Gert er ráð fyrir að Hitaveita Suðurnesja hefji sölu á orku til Norðuráls eftir eitt og hálft ár. Framkvæmdir við virkjunina ná hámarki í sumar en byrjað var á þeim um mitt síðasta ár. Hallgrímur Magnússon, byggingarstjóri Eyktar sem sér um verkið, segir að í sumar verði vel á þriðja hundrað manns að störfum við virkjunina. Verklok séu í nóvember 2006 en byrjað verði að framleiða rafmagn um vorið eða sumarið sama ár. Tæplega 2000 fermetra vinnubúðir hafa verið reistar á svæðinu. Starfsmenn segja að gámaeiningarnar hafi vel haldið veðri og vindum í ótíðinni. Nelson frá Portúgal starfaði áður við Kárahnjúka en líkar vistin mun betur á Reykjanesi þar sem vinnudagurinn að Kárahnjúkum hafi verið of langur og aðstæður erfiðari. Þeir eru mishátt uppi starfsmennirnir sem vinna við Reykjanesvirkjun. Torfi Magnússon kranastjóri vinnur í 35 metra hæð og segist hafa verið smeykur fyrst þegar hann hafi komið upp en síðan hafi það vanist. Aðspurður hvernig sé að vinna í þessari hæð í vondu veðri segir Torfi að það geti verið mjög vont.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×