Innlent

Ekið á annan tug hreindýra

Nýtt vandamál blasir við á Austfjörðum. Á síðustu mánuðum hefur verið keyrt á á annan tug hreindýra og ástæðan er m.a. sögð aukin umferð á hreindýrasvæðum. Það hefur fjölgað í hreindýrastofninum á Austurlandi og á sama tíma hefur umferðin aukist verulega á svæðinu. Við Kárahnjúka er til dæmis kominn vegur í gegnum hreindýrasvæði með þó nokkurri umferð. Karen Erla Erlingsdóttir hjá Hreindýraráði Íslands segir að ekið hafi verið á bilinu 12-15 dýr í vetur, en það er met. Aðallega hafi verið keyrt á þau á Háreksstaðaleið, Jökuldal og Kárahnjúkaveginum. Enginn hefur slasast í slíkum árekstri en slysin verða aðallega í lélegu skyggni og færð. Karen bendir á að dýrin fari ekki eftir neinum umferðarreglum og vekur athygli á því umferðin á svæðinu hafi aukist. Alveg síðan Háreksstaðavegur hafi verið lagður bundnu slitlagi og orðið fær allt árið hafi verið ekið á fleiri hreindýr auk þess sem umferð hafi eðlilega aukist um Kárahnjúkaveg. En hvað er til ráða? Settar voru upp viðvörunarmerkingar á Háreksstaðaleið og Kárahnjúkaleið síðastliðinn vetur og í raun lítið meira hægt að gera en að fá ökumenn til að fara varlega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×