Innlent

Dragnótaveiðar innst í Eyjafirði

Dragnótaveiðar eru að öllu jöfnu bannaðar frá Hríseyjarvita og inn úr en Brim fiskeldi fékk tímabundna undanþágu til veiða á þorski til áframeldis. Brim fiskeldi fékk úthlutað 100 tonnum af þorski til áframeldis og segir Þórður Eyþórsson, deildarstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, að undanþágan sé bundin við Sólborgu ÞH-270 og tímabilið 15. febrúar til 8. apríl. "Við erum að liðka fyrir með þessum hætti og reyna að gera þeim kleift að ná fiskinum sem næst kvíunum. Þannig er hugsanlega hægt að koma í veg fyrir óþarfa afföll. Sólborg getur hins vegar veitt þessi 100 tonn hvar sem er og því óvíst hversu mikill afli veiðist á bannsvæðinu," segir Þórður. Pétur Sigurðsson, formaður Kletts, félags smábátaeigenda á Norðurlandi eystra, segir mjög almenna óánægja meðal smábátaeigenda í Eyjafirði með undanþáguna. "Veiðar með dragnót og veiðar smábáta fara ekki saman og hætta er á að dragnótin skemmi línur eða net smábátanna. Undanþága ráðuneytisins getur kostað að smábátasjómenn geti ekki stundað sínar veiðar innst í Eyjafirði á meðan undanþágan er í gildi og það getum við ekki sætt okkur við. Einnig höfum við áhyggjur af hafsbotninum en veiðar með dragnót innst í Eyjafirði geta raskað lífríki svæðisins og skemmt ómetanlegar náttúruminjar eins og hverastrýtur sem þar eru," segir Pétur. Eftir að smábátasjómenn í Eyjafirði höfðu samband við sjávarútvegsráðuneytið tilkynnti Brim fiskeldi að Sólborg myndi ekki stunda dragnótaveiðar innan við Hríseyjarvita eftir 21. febrúar en Pétur segir að slík yfirlýsing nægi ekki. "Málið snýst ekki um að við séum reiðir út í Brim heldur erum við illir út í ráðuneytið. Við viljum að undanþágan verði afturkölluð strax," segir Pétur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×