Innlent

Mistókst að ná peningum

Tveir menn ógnuðu starfsfólki með hnífum í Árbæjarapóteki í hádeginu í gær og höfðu á brott með sér talsvert magn að örvandi lyfjum. "Þeir reyndu að opna peningahirslur en báru sig svo klaufalega að þeir brutu þær bara en náðu engum peningum," sagði Kristján Steingrímsson apótekari. Mennirnir sem taldir eru vera um tvítugt voru klæddir í samfesting og með grímu. Eftir að þeir höfðu látið greipar sópa hlupu þeir og hurfu sjónum starfsfólksins. Ekki sáust þeir fara inn í bíl eða hvort þeir notuðu annað farartæki. Engin myndavél er í apótekinu en úr því verður bætt hið fyrsta eftir þennan atburð, sagði Kristján. Myndavél hefði þó litlu breytt í þessu tilfelli þar sem þeir voru með öllu óþekkjanlegir. Lögreglan hefur því engar grunsemdir um hverjir þjófarnir eru. Tvær stúlkur voru við afgreiðslu og voru þær að vonum skelkaðar en apótekinu var lokað skömmu síðar og þær fengu að fara heim að jafna sig. Ekki var búið að finna ræningjana þegar blaðið fór í prentun í gærkvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×