Innlent

Fjögur atkvæði réðu úrslitum

Ólafur Loftsson, formaður Kennarafélags Reykjavíkur, var kosinn formaður Félags grunnskólakennara á aðalfundi félagsins sem haldinn var á föstudag og laugardag á Hótel Selfossi. Ólafur velti formanni félagsins til þriggja ára, Finnboga Sigurðssyni, úr stóli í kosningu á föstudaginn. Fjögur atkvæði skildu þá að, 46 á móti 42. Guðrún Guðmundsdóttir bauð sig einnig fram og hlaut fimmtán atkvæði. Finnbogi Sigurðsson, fráfarandi formaður, segir ekki ósennilegt að erfitt verkfall grunnskólakennara í vetur hafi átt sinn þátt í niðurstöðunni. "Í Félagi grunnskólakennara eru rúmlega fjögur þúsund félagsmenn. Það eru 104 fulltrúar á þessum aðalfundi sem vinna í umboði hinna sem heima sitja. Þetta er niðurstaðan og heitir lýðræði," segir Finnbogi. Aðspurður hvort flestir fulltrúanna séu ekki af höfuðborgarsvæðinu þar sem staða Ólafs hafi verið sterk segir Finnbogi: "Nei, ég vil nú ekki meina það, en höfuðborgarsvæðið ræður jú töluvert mörgum atkvæðum, töluvert mörgum." Ólafur segir erfitt kennaraverkfall ekki hafa haft áhrif á niðurstöðuna. Kosið hafi verið um ólíkar áherslur. Hann segir að efla þurfi innra starf félagsins. Auk þess þurfi að huga að drögum að kjarastefnu þess. "Kosningar eru kosningar og svona er vilji fundarins. Það er ekkert sem bendir til annars en að við förum sterk út af fundinum og komum til með að vinna sameiginlega að okkar stefnumálum," segir Ólafur. Aðalfundur grunnskólakennara er haldinn þriðja hvert ár í tengslum við þing Kennarasambandsins. Fundinn sitja stjórn, formenn svæðafélaga og einn fulltrúi kennara fyrir hverja fimmtíu félagsmenn. Finnbogi er með starfssamning hjá Kennarasambandi Íslands fram í ágúst. Hann er í leyfi frá kennslu í Fellaskóla í Breiðholti. Ólafur starfar sem kennari í Foldaskóla í Grafarvogi og á eftir að ganga frá málum þar áður en hann hefur störf hjá Kennarasambandinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×