Innlent

Landsnet endurskoðar áætlanir

Landsnet verður að endurskoða áætlanir sínar um Fljótsdalslínu eftir að iðnaðarráðuneytið synjaði eignarnámsheimild vegna tveggja jarða á Austurlandi. Landsneti er vandi á höndum eftir úrskurð ráðherra og verður að skoða sínar áætlanir aftur. Hins vegar vonast forráðamenn fyrirtækisins að ekki verði töf á lagningu Fljótsdalslínu 3 og 4. Landsnet fór fram á eignarnámsheimild vegna fimm jarða á Austurlandi vegna lagningar línanna. Iðnaðarráðuneytið féllst á eignarnám þriggja jarða: Eyrarteigs, Geirólfsstaða og Langhúsa. Hins vegar var Landsneti synjað um heimild til eignarnáms á jörðunum Seljateigshjáleigu og Áreyjum. Þetta setur óhjákvæmilega strik í reikninginn hjá Landsneti. Þórður Guðmundsson, forstjór Landsnets, segir að fyrirtækið verði að skoða verkáætlanir og ganga að nýju til samninga við eigendur jarðanna tveggja. Farið verði í það á næstu dögum. Stjórnendur Landsnets muni hittast í næstu viku og fara yfir málið og ákveða með hvaða hætti gengið verði fram í málinu en ekki sé annað að gera en að finna lausn á því. Þórður á þó ekki von á að þetta komi til með að tefja framkvæmdina. Línan fari í rekstur á tilsettum tíma en hins vegar hafi úrskurðurinn áhrif á innbyrðis verkþætti í málinu, þeim þurfi að raða upp á nýtt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×