Innlent

Löng bið eftir skilríkjum Fischers

Útlendingastofnun lét kalla á stuðningsmenn Bobbys Fischers úr beinni útvarpsútsendingu í desember til þess að spyrja um fæðingardag hans og annað vegna skilríkja handa honum. Síðan hefur ekkert gerst. Forstjóri Útlendingastofnunar ætlar að funda með stuðningshópnum eftir helgi. Um miðjan desember eftir að Davíð Oddsson utanríkisráðherra bauð Bobby Fischer dvalarleyfi á Íslandi voru nokkrir úr stuðningshópi Fischers í viðtalsþætti á Útvarpi Sögu. Þangað var hringt frá Útlendingastofnun og sagt svo áríðandi að ná sambandi við þá að einn þeirra fór úr þættinum til þess að svara símtalinu. Hann var beðinn um fæðingardag Fischers og aðrar upplýsingar vegna útgáfu pappíra handa skákmanninum.Var jafnframt spurt hvort Sæmundur Pálsson, góðvinur Fischers, færi ekki bara til Japans til þess að sækja hann. Í framhaldi af þessu var mikið fagnað í því sem eftir var af útvarpsþættinum og menn héldu að sigur væri í höfn. Síðan hefur ekkert gerst. Stuðningsmennirnir segja að þeir hafi margoft haft samband við Útlendingastofnun en án árangurs. Svo virðist sem nákvæmlega ekkert hafi gerst eftir að utanríkisráðuneytið sendi frá sér tilkynningu 15. desember síðastliðinn um að stjórnvöld hefðu ákveðið að verða við beiðni Fischers um landvistarleyfi. Í tilkynningunni segir svo orðrétt: „Útlendingastofnun mun gefa út staðfestingu um það í dag og verður sendiráði Íslands í Japan falið að koma henni á framfæri við Fischer, auk þess að aðstoða hann við að komast hingað, óski hann þess.“ Þessa staðfestingu, sem átti að gefa út samdægurs, hefur Útlendingastofnun ekki enn gefið út. Hildur Dungal, sem tók við starfi forstjóra Útlendingastofnunar um áramótin, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar að hún myndi eiga fund með fulltrúum stuðningshópsins á mánudag til þess að fara yfir stöðuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×