Innlent

Ræða þarf stöðu trúarlegra skóla

Í umræðum í borgarstjórn um hlutverk og stöðu einkarekinna skóla í borgarstjórn viðraði Stefán Jón Hafstein, formaður menntaráðs Reykjavíkurborgar, hugmyndir um hvernig breyta megi einkareknum skólum í borginni. Sagði hann meðal annars um Suðurhlíðarskóla, sem rekinn er af aðventistum, að hann væri rekinn á trúarlegum forsendum og ræða þyrfti stöðu borgarinnar gagnvart slíkum skólum. "Hvert er svar okkar, komi til þess að félag múslima óski eftir að reka skóla á sínum forsendum í Reykjavík, eða skólar annarra trúarhópa?" Jón Karlsson, skólastjóri Suðurhlíðarskóla, sagði að hann hefði ekki fundað með Stefáni Jóni um breytingar á rekstri skólans, né heldur um trúarlegar forsendur hans. "Við búum í kristnu þjóðfélagi og það er undarlegt ef á að refsa fólki fyrir að setja kristni í öndvegi," sagði Jón. Stefán Jón segir að með þessum orðum hafi hann ekki verið að taka efnislega afstöðu eða beina orðum sínum gegn Suðurhlíðarskóla. Hann hafi verið að tala út frá sænsku reynslunni. Þar hafi myndast heitar umræður um sértrúarskóla þar sem börn væru að einangrast í menningarkimum, en slíkt þurfi að ræða hér á landi út frá fjölmenningarstefnu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×