Innlent

Mjólkursamsalan og MBF sameinast

Mjólkursamsalan mun renna inn í Mjólkurbú Flóamanna, samkvæmt tillögu sem stjórnir samvinnufélaganna kynna bændum á næstu dögum. Ekki er áformað að loka neinni af fimm mjólkurstöðvum þeirra í kjölfar sameiningarinnar sem taka á gildi í apríl. Nærri lætur að tveir þriðju af allri mjólkurframleiðslu landsins séu á hendi þessara tveggja fyrirtækja. Starfsmenn þeirra eru um 350 talsins, þar af um 200 hjá Mjólkursamsölunni og um 150 hjá Mjólkurbúi Flóamanna. Fulltrúaráð fyrirtækjanna samþykktu á fundum í desember að hefja viðræður um sameiningu og fólu stjórnum sínum að vinna að málinu. Samkvæmt samkomulagsdrögum sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að samruninn fari fram með þeim hætti að Mjólkursamsalan renni inn í Mjólkurbú Flóamanna, að sögn Magnúsar Sigurðssonar, stjórnarformanns Mjólkursamsölunnar, en kynning á málinu er að hefjast í félagsdeildum. Ljóst er að slíkur samruni er viðkvæmt mál enda er yfirlýst markmið að ná fram hagræðingu. Samlagssvæði Mjólkursamsölunnar nær yfir Vestur- og Norðvesturland og rekur samsalan mjólkurstöðvar í Reykjavík, Búðardal og á Blönduósi. Samlagssvæði Mjólkurbús Flóamanna nær yfir Suðurland og Austurland að Hellisheiði eystri og rekur fyrirtækið tvö mjólkurbú, á Selfossi og Egilsstöðum. Margir spyrja nú hvort hagræðingin felist í því að loka einhverju af mjólkurbúunum en að sögn Magnúsar er gert ráð fyrir að allar starfsstöðvar verði reknar áfram. Áætlað er að heimili og varnarþing hins sameinaða mjólkurfélags verði á Selfossi. Aðalskrifstofurnar eiga hins vegar að vera í húsakynnum Mjólkursamsölunnar að Bitruhálsi í Reykjavík.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×