Innlent

20% söfnunarfjár til símafyrirtækja

Símafyrirtækin taka tvær krónur af hverjum tíu í söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar. Talsmenn þeirra segja það ekki óeðlilegt.  Það brá mörgum að heyra að Síminn tæki tuttugu prósent og Og Vodafone fimmtán prósent af því fé sem safnast til Hjálparstarfs kirkjunnar með því að fólk hringi í síma 1900 og sendi sms-skeytið "gefa". Við það er bætt 299 krónum við símreikning viðkomandi. Símafyrirtækin segja að á þessu séu eðlilegar skýringar. Gestur Gestsson hjá Og Vodafone segir þetta tvíþætt: Annars vegar sé alltaf ákveðin umsýsla í kringum svona þó það sé minnihluti þessarar þóknunar. Hins vegar séu þetta gjafir sem einstaklingar gefi og greiði síðan inn á símreikninginn sinn. Það séu aftur á móti alltaf einhver afföll og þau koma ekki ljós fyrr en eftir 3-6 mánuði að sögn Gests. Peningarnir eru þó afhentir strax þar sem yfirleitt er vitað nokkurn veginn fyrirfram hver afföllin séu og því samið um það með hliðsjón af reiknuðum hefðbundnum afföllum. Svipaðar skýringar voru gefnar hjá Símanum sem minnti einnig á að fyrirtækið hefði gefið Hjálparstarfi kirkjunnar eina milljón króna þegar safnað var vegna flóðbylgjunnar í Asíu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×