Innlent

Leigði í ósamþykktu húsnæði

Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar leigði herbergi fyrir skjólstæðinga sína í nokkra mánuði í haust í ósamþykktu húsnæði að Hvaleyrarbraut 22, á hafnarsvæðinu í suðurhluta bæjarins. Björn Baldursson, annar tveggja eigenda húsnæðisins, segir að eigendurnir hafi losað sig við skjólstæðinga stofnunarinnar því að þeim hafi bara fylgt eiturlyfjaneysla og vandræði. Hópur útlendinga býr nú í húsnæðinu sem er í skrifstofum gamallar síldarvinnslu við Hvaleyrarbraut 22. Hópurinn samanstendur af sex Lettum, þremur Litháum og þremur Íslendingum. Íslendingarnir eru öryrkjar og útlendingarnir vinna hjá öðrum eigandanum og verktakafyrirtækinu Ris. Í húsnæðinu hefur verið innréttuð herbergjaleiga með öllum græjum, níu herbergi og þrjár stúdíóíbúðir án þess að tilskilin leyfi lægju fyrir. Herbergin eru leigð á 32 þúsund og íbúðirnar á 40 þúsund krónur. Húsnæðið er í eigu Péturs Jónssonar húsasmíðameistara og Björns. "Þetta er allt nýuppgert með eldhúsi, setustofu, sjónvarpi, þvottahúsi, þurrkara og þvottavél, uppþvottavél í eldhúsinu. Öll herbergi eru parkettlögð og steinteppi á sameigninni. Það er allt nýuppgert og öll herbergin nýmáluð með nýjum innréttingum. Þetta er skráð iðnaðarhúsnæði en mjög huggulegt, bara svipað og gistiheimilið Berg, iðnaðarhúsnæði sem búið er að breyta í gistiheimili," segir Björn. Már Sveinbjörnsson hafnarstjóri kannaðist við að búið væri í þessu húsnæði en sagði málið ekki í lögsögu hafnarinnar heldur byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits. Starfsmanni byggingarfulltrúans í Hafnarfirði kom á óvart að búið væri í þessu húsnæði enda um iðnaðarhúsnæði á hafnarsvæði að ræða. Hvorki náðist í félagsmálastjóra Hafnarfjarðar né fulltrúa heilbrigðiseftirlitsins í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×