Innlent

Slæmt ástand á Keflavíkurflugvelli

Fjöldi manns bíður um borð í millilandaflugvélum við Flugstöðina á Keflavíkurflugvelli þar sem flugmenn leggja ekki í hann vegna vinds og blindu á vellinum. Sjálfar brautirnar eru hins vegar í lagi. Fraktvél frá Flugleiðum komst í loftið snemma í morgun eftir að flugmennirnir höfðu beðið í nokkra stund á flugbrautinni og sættu lagi þegar veðrið dúraði aðeins. Um svipað leyti lenti líka vél að vestan og gat ekið að flugstöðinni, en skömmu síðar lenti önnur vél að vestan og þurftu farþegar að sitja í henni í tvær og hálfa klukkustund eftir lendingu þar sem ekki þótti hættandi á að aka henni upp að landganginum. Var loks brugðið á það ráð að skýla vélinni með stórum slökkvibílum og komst hún þá að landgangi. Fjórar Flugleiðavélar bíða enn við flugstöðina en fyrir stundu var Kaupmannahafnarvélinni ekið út á braut og ætla flugmenn að freista flugtaks. Sömuleiðis er vél Iceland Express komin út á braut. Spáð er illviðri fram yfir hádegi og óljóst hvenær vélarnar komast í loftið en ljóst er að millilandaflug er allt úr skorðum gengið. Þá hafa hvorki Landsflug né Flugfélag Íslands flogið innanlandsflug í morgun en verið er að kanna skilyrði þessa stundina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×