Viðskipti innlent

Hagnaður Marels 6,6 milljónir evra

Marel hagnaðist um 6,6 milljónir evra á síðasta ári. Þetta er 76 prósenta aukning frá árinu áður, en niðurstaðan er engu að síður nokkuð undir spám greiningardeilda bankanna. Hlutabréf í Marel lækkuðu lítillega þegar uppgjörið birtist í Kauphöll Íslands í gær en hækkuðu aftur nánast samstundis. Hörður Arnarson, forstjóri Marels, segir árið í fyrra hafa verið það besta í sögu félagsins. Hann segir að frávik í afkomu frá spám greiningardeilda skýrist meðal annars af því að árstíðasveifla í rekstri Marels sé nú minni en á síðustu árum, auk þess sem pantanir á fjórða ársfjórðungi hafi borist seint. Hann segir því að verkefnastaða Marels hafi batnað. "Þetta var mjög gott ár í erfiðu umhverfi. Þetta er langbesta afkoma okkar í einhverju erfiðasta umhverfi sem við höfum unnið í. Við erum því mjög ánægð með uppgjörið," segir Hörður. Hann segir að kennitölur í rekstrinum fari mjög batnandi, að sölustarf gangi vel og áfram verði lögð áhersla á að auka markaðshlutdeild fyrirtækisins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×