Innlent

Kristall Plús fer á markað

Umhverfisstofnun hefur leyft Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni að setja vítamínbætt sódavatn á markað, en Lýðheilsustöð hafði gert athugasemdir við það. Kristall Plús var kominn á markað en síðan var frekari dreifing hans bönnuð. Í drykknum er B-vítamínið fólasín sem Lýðheilsustöð segir að megi auka neyslu á og reyndar er sérstaklega mælt með því fyrir konur á barneignaraldri. Einu dæmin um of mikla neyslu fólasíns eru hjá börnum innan 7 ára aldurs, en þau fá fólasín einkum úr morgunkorni. Umhverfisstofnun tók afstöðu til málsins í gær og Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir að stofnunin hafi leyft vöruna þannig að hún sé væntanleg á markað. Stofnunin hafi þó sett þau skilyrði að drykkurinn yrði merktur þannig að hann sé ekki ætlaður börnum yngri en sjö ára. Að sögn Andra Þórs ætlar Ölgerðin að una þessari niðurstöðu en hyggst kanna lagalega stöðu þess að þurfa að merkja drykkinn sérstaklega óheppilegan fyrir börn. Engu að síður fer drykkurinn í dreifingu fljótlega. Andri Þór segir þrautagönguna sem fyrirtækið þurfti að leggja í vegna málsins ekki koma á óvart enda vanti lagaramma fyrir mál á borð við þetta og því sé gott að nú hafi verið skapað ákveðið fordæmi. Hann furðar sig samt á því að viðvörunin þurfi að vera á flöskunum. Engin eituráhrif séu þekkt af neyslu B-vítamíns, en þau séu vatnsleysanleg. Einu þekktu áhrifin af ofneyslu séu þau að of mikið fólasín geti komið í veg fyrir að áhrif af skorti á B-12 vítamíni komi í ljós. B-12 vítamín sé hins vegar í drykknum þannig að hvort útiloki hitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×