Innlent

700 króna verðmunur á soðningu

Allt að sjö hundruð króna verðmunur getur verið á soðningunni út úr búð þessa dagana. Skýringanna er að leita í mismunandi kröfum viðskiptavina. Meðalverð á ýsu á fiskmörkuðum landsins síðastliðinn mánuð er um 93 krónur kílóið samkvæmt skip.is. Í frétt þar segir að sé miðað við 45 prósenta flakanýtingu sé flakaverðið á mörkuðunum um 200 krónur kílóið. Töluverð lækkun hefur orðið á verði á ýsu á mörkuðum síðustu mánuði en ekki að sama skapi út úr búð. Menn hljóta að velta fyrir sér hvað veldur. Fréttastofa Stöðvar 2 skoðaði málið í dag og komst að því að ekki er sama ýsa og ýsa. Hægt er að kaupa frosna ýsu með roði í Bónus á 299 krónur kílóið. Ef flökin eru hins vegar keypt fersk úr fiskborði hækkar verðið allverulega og fer yfir 800 krónur. Fisksalar sem fréttastofan ræddi við segja langt í frá að þeir stundi okurstarfsemi. Mikið hafi breyst á undanförnum árum, hreinlætiskröfur hafi aukist, launakostnaður og krafa um þjónustu. Hafa beri í huga vinnu við flökun og snyrtingu og svo við rekstur búðanna. Þannig eru viðskiptavinir í raun að borga fyrir auknar kröfur með háu verði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×