Innlent

Skattayfirvöld draga lappirnar

Skattayfirvöld eru að draga lappirnar í málum þeirra sem starfa ólöglega hérlendis, að sögn Sveins Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. "Mér finnst að skattayfirvöld eigi að elta þá sem eru með þessa menn í vinnu," segir Sveinn. "Það er verið að elta þessa erlendu starfsmenn til að kanna hvort þeir séu með atvinnuréttindi. Þær aðgerðir eru bara fyrirsláttur. Mér sýnist til dæmis ansi lítið gert í því að skoða hvort Íslendingar séu með iðnréttindi. Það er mjög mikilvægt að það sé tekið á þessum málum og farið í aðgerðir til að draga úr þessari svörtu starfsemi sem er orðin mikil meinsemd hér. Það er alveg óþolandi fyrir alvöru fyrirtæki sem stunda heiðarleg viðskipti að keppa við fyrirtæki sem eru að svíkjast um, borga laun sem eru undir almennum töxtum og gefa ekkert upp til skatts." Indriði H. Þorláksson ríkisskattstjóri segir meginregluna vera þá að ef ábendingar berist um ákveðin fyrirtæki séu þær skoðaðar. Skattayfirvöld geti líka tekið það upp sjálf að skoða fyrirtæki. Aðspurður hvort skattayfirvöld muni gera það í þessu tilfelli segist hann ekki vilja tjá sig um það. Sveinn segir tiltölulega nýlega breytingu á skattareglum eina skýringuna á því hvers vegna það sé að færast í vöxt að fyrirtæki gefi ekki upp laun starfsmanna. "Virðisaukaskattur af vinnu á byggingarstað var áður endurgreiddur og það dró þessi viðskipti mikið til upp á yfirborðið. Síðan var endurgreiðsluhlutfallið lækkað úr 100 prósentum í 60 prósent. Við vorum mjög uggandi yfir þeirri breytingu og töldum að það yrði til þess að auka svarta starfsemi í byggingariðnaði, sem mér sýnist að hafi orðið raunin." Indriði H. segir það álitamál hvort ástæða sé til að endurskoða þessar skattareglur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×