Innlent

Vill hækka greiðslur vegna mistaka

Tryggingastofnun vill láta hækka hámarksgreiðslur til sjúklinga vegna læknamistaka en þær geta ekki orðið hærri en 5,7 milljónir króna. Dæmi eru um að sjúklingar sem verða fyrir mestu tjóni tapi milljónum vegna þessa. Þrír af tuttugu og fimm sjúklingum sem gengust undir örorkumat vegna sjúklingatryggingar fengu ekki tjón sitt bætt af fullu þar sem hámarki sjúklingatryggingar var náð. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um sjúklingatryggingar sem Una Björk Ómarsdóttir, deildarstjóri slysatryggingadeildar stofnunarinnar, hefur tekið saman. Una segir að þremenningarnir hafi fengið hámarksbætur samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu en ef þær hefðu verið reiknaðar út að fullu samkvæmt skaðabótalögum hefðu þær orðið hærri. Aðspurð hversu miklu fólk hafi tapað segir Una ekki hægt að nefna ákveðnar fjárhæðir en það sé mismunandi eftir einstaklingum og það sé m.a. miðað við tekjur. Í einhverjum tilvikum gæti tapið numið milljónum. Sjúklingatryggingar eru greiddar vegna læknamistaka eða þar sem eitthvað fer úrskeiðis við læknismeðferð án þess að neinum sé um að kenna. Í skýrslunni segir að óréttmætt sé að þeir sjúklingar sem verði fyrir minni skaða vegna læknamistaka eða skaða við læknismeðferð fái tjón sitt bætt af fullu en þeir sem líði mest fái ekki tjónið bætt þar sem hámarki bótafjárhæðar sé náð. Una segir að Tryggingastofnun telji sanngjarnara að þeir sem verði fyrir miklu tjóni fái það bætt að fullu. Það sé sárt að sjá að þeir sem verði fyrir litlu tjóni fá það bætt að fullu en þeir sem verði fyrir miklu tjóni fái aðeins takmarkaðar bætur. Tryggingastofnun annast sjúklingatryggingu fyrir sjúkrastofnanir í eigu ríkisins, svo sem sjúkrahús og heilsugæslustöðvar, en auk þess bjóða þrjú vátryggingafélög með starfsleyfi hér á landi vátryggingu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu fyrir sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn. Vátryggingafélögunum þremur bárust 55 umsóknir um bætur vegna sjúklingatryggingar á árunum 2001 til 2004. Bótaskylda var samþykkt í 36 málum og greiddar bætur námu rúmum 27 milljónum. Á sama tímabili bárust Tryggingastofnun ríkisins tæpar tvö hundruð umsóknir um bætur og greiddi stofnunin um 51 milljón vegna þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×