Innlent

Kostnaðarsamt eftirlit í Svíþjóð

Sænskur eftirlitsiðnaður með sjávarútvegi þar í landi er vaxinn sjávarútvegnum sjálfum yfir höfuð þar sem hann kostar meira en sem nemur aflaverðmæti sjómannanna, sem verið er að fylgjast með. Framlegð eftirlitsmanna hér á landi er mun meiri. Þetta er niðurstaða sænskra blaða- og fréttamanna í Gautaborg, sem könnuðu málið. Nú eru um það bil þúsund fiskimenn á sænskum bátum sem eru tólf metrar eða lengri en fjöldi starfsmanna sem vinnur við stjórnun og eftirlit með þessum mönnum er kominn upp í 890. Kostnaður vegna starfa eftirlitsmannanna er um 8,8 milljarðar íslenskra króna á ári, eða um hundrað milljónum meiri en aflaverðmæti sjómannanna sem þeir eru að ráskast með. Þótt Svíar láti sér ekki allt fyrir brjósti brenna þegar að eftirlitsiðnaði kemur þykir nú mörgum að hér sé nóg komið og ætlar Anna Kristin Nykvist, landbúnaðarráðhera Svía, sem jafnframt fer með sjávarútvegsmál, að kanna málið nánar. Eftirlitsiðnaður með sjávarútvegi hér á landi hefur blómstrað hin síðari ár og hafa margir útvegsmenn kvartað yfir því. En þegar skotið er lauslega á þann fjölda sem vinnur hér á landi við stjórnun og eftirlit með veiðum er ef til vill verið að tala um um það bil tvö hundruð manns. Það eru starfsmenn Fiskistofu og hluti af starfsmönnum Hafrannsóknastofnunarinnar, Landhelgisgæslunnar og sjávarútvegsráðuneytisins. Framlegð þessa hóps er margföld á við starfsbræðurna í Svíþjóð því íslensku eftirlitsmennirnir, sem eru margfalt færri en þeir sænsku, fylgjast með margfalt fleiri sjómönnum og hvað þá margföldum afla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×