Innlent

Missir sjón á öðru auga

Cesar Arnar Sanches, íslenski hermaðurinn sem særðist í síðustu viku í Írak, er kominn til Þýskalands. Móðir hans, Arna Bára Arnarsdóttir, talaði við hann í síma í gær. Hún hefur eftir læknum á sjúkrahúsinu að Cesar sé búinn að missa sjón á öðru auga. Hann fékk líka járnflís undir aðra hnéskelina sem skar í sundur taugar og gerir það að verkum að Cesar getur ekki lyft tánum. Það mun þó gróa að sögn þýsku læknanna. Auk þess er hann allur útskorinn eftir sprengjubrotin. Að sögn Örnu er ekki víst á þessari stundu hvort Cesar haldi skaddaða auganu eða fái glerauga. Arna segir hljóðið ekki hafa verið gott í Cesari; hann hafi verið mjög langt niðri. Hún kveðst varla hafa sofið dúr sl. nótt eftir að hafa heyrt í honum en Arna fer til sonar síns um leið og hann er kominn til Bandaríkjanna sem gæti orðið um miðja vikuna. Þau koma svo til Íslands en ekki liggur fyrir hvenær það verður. Arna á von á því að hermennsku Cesars sé hér með lokið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×